hvernig á að prjóna sokka með halldóruhæl/frönskum hæl?

það er í rauninni mjög einfalt. fyrst er fitjað upp og prjónað stroff. passa þarf að fitja upp á sléttri tölu, hér eru lykkjurnar 44 og ég prjóna 2x2 stroff (2 slétt 2 brugðin) ca 6 cm.

þegar stroffið er orðið nógu langt þá prjóna ég 4 umferðir slétt. síðan skipti ég lykkjuföldanum í tvennt, hér 22 lykkjur. ég prjóna 22 lykkjur og geymi hinar 22 lykkjurnar á 2 prjónum.

síðan byrja ég á hælstykkinu. þá prjóna ég fram og til baka, slétt á réttunni og brugðið á röngunni. passa þarf að taka upp fyrstu lykkju hverrar umferðar eins og þú ætlir að prjóna í hana. það þarf líka að passa þegar prjónað er á röngunni að prjóna síðustu lykkjuna líka brugðið.

hér prjónaði ég hælstykkið ca 5 cm.
því næst skipti ég lykkjunum á hælstykkinu í þrennt, hér 7-8-7 og prjóna fyrstu 15 lykkjurnar. svo sný ég við og prjóna frá röngunni næstu 8 lykkjur brugðið. þá sný ég aftur við og prjóna frá réttunni næstu 7 lykkjur, eða þangað til 1 lykkja er eftir að gati, og tek þá 1 lykkju óprjónaða, prjóna næstu og steypi svo óprjónuðu lykkjunni yfir. síðan sný ég við og prjóna frá röngunni þar til 1 lykkja er eftir að gati og prjóna þá 2 lykkjur brugðnar saman. þetta er svo endurtekið þar til miðlykkjurnar 8 eru eftir á prjóninum.

þá þarf að taka upp hliðarlykkjurnar á hælstykkinu. ég sný röngunni að mér og tek upp innri lykkjurnar, hér 10 lykkjur á hvorri hlið.
síðan prjóna ég 1 umferð yfir og þegar ég prjóna í hliðarlykkjurnar þá tek ég í þær á röngunni þannig að snúningur komi á lykkjuna þegar hún er prjónuð. ef hliðarlykkjurnar verða ekki snúnar þá snúa þær vitlaust á prjóninum og þá er einfalt að snúa þeim bara áður en prjónað er í þær á röngunni.

þá er byrjað á úrtöku því það þarf að ná upphaflegum lykkjufjölda, hér 44 lykkjur. úrtaka byrjar þar sem umferðin byrjar (á hliðinni á hælnum). þá er 1 lykkjan tekin óprjónuð, næsta lykkja prjónuð og síðan er óprjónuðu lykkjunni steypt yfir. þá eru prjónaðar næstu 19 lykkjur (eða þar til komið er á hina hliðina á hælnum) og þá eru 2 lykkjur prjónaðar saman, síðan 1 tekin óprjónuð og sú næsta prjónuð og síðan steypt yfir. þá er prjónað til enda umferðar og 2 síðustu lykkjurnar prjónaðar saman.
þessi úrtaka er gerð í annarri hverri umferð þar til ummhaflegum lykkjufjölda er náð.

þá er fóturinn prjónaður, hér 10 cm (frá hæl).

síðan er úrtaka fyrir tá og hún er alveg eins og hælaúrtakan nema að þegar helmingi lykkjuföldans er náð, hér 22 lykkjur, þá er tekið úr í hverri umferð þar til ca 6 lykkjur eru eftir á prjónunum. þá er bandið dregið í gegnum lykkjurnar og togað í.

sokkurinn er tilbúinn!!