Jæja og nú er ennþá lengra síðan síðast. Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur, flutningar í Noregi og ferðalag til Íslands. Ég er þó alltaf að prjóna eitthvað svona inn á milli.
Við vorum að flytja frá Alta til Narvik og okkur langaði til að gefa leigusalanum okkar í Alta eitthvað íslenskt í kveðjugjöf. Ég prjónaði því þetta vesti handa henni. Þetta átti reyndar að vera peysa en Friðþór sagði að það væri meira notagildi í svona vesti þannig að ég sleppti bara ermunum. Þetta er peysan Perla úr Fleiri Prjónaperlum og vestið er úr einföldum plötulopa. Ég notaði bara þann lopa sem ég átti til í munstrið en Friðþór keypti þennan ljósgráa lit þegar hann fór til Íslands í vor. Mér finnst hann mjög fallegur og mér finnst vestið koma vel út.
Það er ýmislegt sem ég hef verið að prjóna og langar að prjóna akkurat núna en það væri nú óskandi að klára norsku peysuna hennar Kollu vinkonu, allavega í náinni framtíð. Sú peysa er næstum tilbúin, á bara eftir að klára munstursbekkinn og kragann en peysan tók svo mikið pláss að hún varð eftir í Noregi þar til Friðþór fer þangað næst. Kolla fær peysuna vonandi fyrir köldustu vetrarmánuðina í Alta :)